Lax í suðrænni sveiflu

IMG_0405

Ég elska fisk og þá sérstakleg lax, það er hægt að elda hann á svo marga vegu og hann er alltaf góður. Ég tíndi til það sem ég átti í ískápnum og úr varð lax í suðrænni sveiflu með léttri sósu. Ég borðaði yfir mig og gott betur en það en mér leið afskaplega vel eftir þessa máltíð, létt máltíð sem fangar augað og kitlar bragðlaukana. Mæli með fiskveislu  handa fjölskyldu og vinum um helgina.

IMG_0375

Lax í suðrænni sveiflu
500 g laxaflök
1 dl sojasósa
1 dl olía
2 cm engiferrót
1/2 chili, fræhreinsað
1 msk ferskur koríander, smátt saxaður
sesamfræ
salt og pipar, magn eftir smekk

IMG_0382

Aðferð:
Roð og beinhreinsið laxaflökin, skerið fiskinn niður í álíka stóra bita. Afhýðið engifer, fræhreinsið chili og saxið smátt. Setjið engifer, chili, kóríander, sojasósu, salt, pipar og olíu í matvinnsluvél og maukið. Leggið laxabitana í eldfast mót og setjið maukið á laxinn, leyfið þessu að standa í 30 mínútur í kæli. Snöggsteikið fiskinn á pönnu, í eina mínútu á hvorri hlið. Sáldrið sesam fræjum yfir fiskinn og setjið fiskinn inn í ofn við 180°C í 8 – 10 mínútur.

Litríkt og stórgott mangósalsa

Þetta mangósalsa hentar afskaplega vel með öllum fisk.  Mér finnst í raun óþarfi að vera með hrísgrjón eða kartöflur með þessum rétti. Þetta meðlæti eitt og sér er alveg nóg og er ótrúlega ferskt og gott. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið ykkur áfram með þessa uppskrift og bætið því sem að ykkur finnst gott í blönduna.

1 ferskt mangó í teningum
1 meðalstór finsaxaður rauðlaukur
1/2 agúrka, smátt skorin
10 kirsberjatómatar, smátt skornir
1 msk fínsaxaður kóríander
1 meðalstór lárpera
Safi og rifinn börkur af 1/2 lime (límónu)
1 tsk gróft salt (ég mæli með Saltverks salti)
Ferskmalaður svartur pipar, magn eftir smekk

Blandið öllu sem er í uppskriftinni vel saman og geymið í kæli í 30 mínútur.

IMG_0410

Létt sósa með kóríander

1 lítil dós sýrður rjómi (ég nota stundum létt AB mjólk)
safi og rifinn börkur af 1/2 lime (límónu)
1 msk smátt saxaður kóríander
2 pressuð hvítlauksrif
1 tsk hunang
salt og pipar, magn eftir smekk

Þessu öllu hrært vel saman, einfaldara verður það ekki.

IMG_0407

Þessi réttur er mjög einfaldur og mjög ljúffengur, ég á eftir að elda hann oft í sumar. Hlakka til að draga grillið fram og þá verður grillaður lax á boðstólnum. Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þennan fiskrétt kæru vinir. Hann færir ykkur örlítið nær sumrinu, sem virðist ekki ætla að láta sjá sig strax.

xxx
Eva Laufey Kjaran

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Evu Laufeyjar Kjaran Hermannsdóttur – www.evalaufeykjaran.com – smelltu hér

Leave a Reply