Halloumi salat með chilli og jarðaberjum

min_img_2620

Ég er nýlega komin heim frá Bretlandi, öllu heldur Manchester, þar sem mér áskotnaðist þessi dásamlega góði gríski halloumi ostur. Það er tiltölulega auðvelt að nálgast ostinn þar í landi þar sem hann er mjög vinsæll í hverskyns matargerð, salöt og þess háttar. Ég hélt reyndar að osturinn væri ófáanlegur hér á landi en hef nú komist að því að hann hefur fengist í ostaversluninni Búrinu í Nóatúni sem og í versluninni Tyrkneskum Bazar. Afar ánægjulegar fréttir og því ekkert í vegi fyrir því að verða sér úti um þetta fína og skemmtilega hráefni.

Það er langbest að mínu mat að grilla eða steikja Halloumi þó hann megi vissulega borða kaldan eins og hann kemur út pakkanum. Þetta er afar þéttur ostur og dálítið saltur. Kannski mætti lýsa honum sem blöndu af mozarella og fetaosti, bara mun þéttari í sér og frekar saltur. Hann er því góður í hvers kyns salöt eða rétti þar sem hann fær að njóta sín til fulls. Það góða við hann er að bræðslumark ostsins er afar hátt og því má auðveldlega steikja hann án þess að hann leki nokkuð út á pönnunni og hann má líka grilla á útigrilli. Ég mæli með því að þið verðið ykkur úti um þennan góða ost og prófið hann við fyrsta tækifæri.

min_img_2609

Salatið:

  • 2 pakkar halloumi (ca. 400 gr)
  • Þurrkað óreganó
  • Ólífuolía
  • 1 stór rauður chillipipar, smátt skorinn
  • 1 poki blandað salat að eigin vali
  • 1 bakki jarðarber, skorin í tvennt
  • 3 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar
  • Nokkrar grænar ólífur
  • Safi úr ca. 1/2 sítrónu

Aðferð: Byrjið á að skera halloumi ostinn í ca. 0.5 cm þykkar sneiðar. Leggið sneiðarnar í fat, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með þurrkuðu óreganó og helmingnum af chillipiparnum. Leyfið þessu að liggja í marineringunni á meðan þið útbúið restina af salatinu.

min_img_2582

Setjið hinn helminginn af chillipiparnum í litla skál og hellið 3-4 msk af ólífuolíu yfir ásamt smá sítrónusafa og hrærið saman, setjið til hliðar.  Setjið blönduð salatlauf á stóran disk (t.d kökudisk). Stráið yfir jarðarberjum, vorlauk og nokkrum ólífum. Hitið stóra pönnu við háan hita, ég stillti á 8 af 10 (mér finnst gott að nota viðloðunarfría pönnu við þetta).

img_2605

Setjið ostsneiðarnar á pönnuna og látið steikjast í 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til osturinn er gullinnbrúnn.

min_img_2608

Færið yfir á disk og leyfið ostinum að kólna örlítið áður en þið færið hann yfir á salatið. Setjið hann svo yfir salatið og dreypið chilli olíunni yfir ásamt því að kreista dálítinn sítrónusafa yfir að lokum.

min_img_2617

Berið fram t.d með ísköldu þurru hvítvíni sem forrétt eða smárétt.

min_img_2609

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Helenu Gunnarsdóttur – www.eldhusperlur.com – smelltu hér

Leave a Reply