Grillspjót með lambakjöti og grænmeti

min_img_3121

Það er nú varla hægt að kalla þetta uppskrift heldur er þetta nú svona meira hugmynd að kvöldmat. Mér þykir alveg einstaklega skemmtilegt að grilla mat á spjóti. Bæði finnst mér það sumarlegt og bragðgott en svo er það alveg ótrúlega sniðugt af því að með því að þræða kjöt, fisk eða grænmeti upp á spjót getur maður hafti bitana tiltölulega litla og þá brúnast miklu meira yfirborð heldur myndi gerast á einum stórum bita. Þá fá allir nokkrar litlar ”steikur” í staðin fyrir að þurfa að skera sneiðar af einum bita. Svo er þetta líka alveg svakalega fljótleg eldamennska, tekur aðeins um 10 mínútur að grilla svona lambaspjót.

min_img_3120

Það eru nokkrir hlutir sem er ágætt að hafa í huga þegar svona spjót eru grilluð. Það er ekki sniðugt að raða á spjót hráefni sem þarf mis mikinn eldunartíma. Ég set til dæmis nánast aldrei kjúkling eða svínakjöt á spjót með grænmeti af því mér finnst grænmetið oftast brunnið þegar kjötið er eldað í gegn. Það er upplagt að raða saman lamba- eða nautakjöti ásamt grænmeti á spjót því það er allt í lagi þó það kjöt sé ekki alveg fulleldað í gegn. Ef grilla á grænmeti með kjúklingi eða svínakjöti er sniðugt að þræða það á sér spjót svo auðveldara sé að stjórna eldamennskunni. En svona gerði ég allavega þessi fljótlegu og afar góðu lamba grillspjót í þetta skiptið.

min_img_3134

Lamba grillspjót (fyrir 3):

  • 500 gr lamba innralæri
  • 1 rauð paprika
  • 1 gul paprika
  • 2 rauðlaukar
  • 4 msk ólífuolía,
  • 1 tsk gróft sjávarsalt, 1 tsk nýmalaður svartur pipar og 1 tsk rósmarín.
  • Góð BBQ sósa (má sleppa)

    Aðferð: Byrjið á að skera grænmetið og kjötið í hæfilega bita svo gott sé að þræða þá upp á teina. Setjið 4 msk af ólífuolíu, 1 tsk gróft sjávarsalt, 1 tsk pipar og 1 tsk rósmarín í fat eða skál og veltið kjötinu og grænmetinu vel upp úr kryddolíunni. Þræðið upp á tein og grillið við frekar háan hita í 3-5 mínútur á hvorri hlið. Penslið BBQ sósunni yfir spjótin rétt áður en þið takið þau af grillinu, snúið þeim við og penslið hinu megin. Grillið í 1-2 mínútur eftir að sósunni hefur verið penslað á. Ég bar fram með þessu grillaðar sætar kartöflusneiðar og kalda jógúrtsósu.

    min_img_3131

    Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Helenu Gunnarsdóttur – www.eldhusperlur.com – smelltu hér

 

Leave a Reply