Streita og hjartasjúkdómar – Hvað er streita?

Stress-under-a-microscope

Flestum er ljóst að lífsstíll okkar getur haft mótandi áhrif á heilsuna. Í þessu felast ýmis tækifæri til að auka vellíðan og draga úr líkum á sjúkdómum. Það er í okkar höndum hvað og hversu mikið við borðum, hvort við hreyfum okkur, hvort við reykjum, og hvort og hvernig við notum áfengi. Ýmsum öðrum lífstílsþáttum er þó erfiðara að stýra. Gott dæmi um þetta er streita. Þó er streita sannarlega oft meiri áhrifavaldur á líf okkar og heilsu en við gerum okkur grein fyrir.

Ég tel afar mikilvægt að skilja eðli streitu og einkenni hennar. Það er forsenda þess að við getum tekist á við vandann. Efnið er hins vegar flókið og of umfangsmikið til að unnt sé að fjalla um það í einni stuttri grein. Ekki vil ég heldur þreyta lesendur með löngum ritgerðum. Því mun ég skipta umfjöllun minni um tengsl streitu við hjarta-og æðasjúkdóma í þrjá hluta. Í þessum hluta fjalla ég um hvað streita er, helstu einkenni streitu og muninn á streituvaldi (stressor) og streituviðbrögðum. Síðar mun ég fjalla nánar um tengslin milli streitu og hjartasjúkdóma og gera grein fyrir nokkrum rannsóknum þar sem þessi tengsl hafa verið skoðuð. Að lokum mun ég fjalla um hvað er til ráða og hvernig við getum brugðist við streitu.

Margar rannsóknir benda til þess að tilfinningaleg streita geti aukið líkurnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Langvinn streita hækkar oft blóðþrýsting og hefur neikvæð áhrif á blóðfitur. Streita ýtir undir æðasamdrátt, hvetur til bólgusvörunar í æðakerfinu, eykur blóðsegamyndun og hættuna á hjartaáföllum og skyndidauða.

Hvað er streita?

Einkenni sem rekja má til streitu eru ein algengasta ástæða þess að fólk leitar læknis. Hluti vandans er þó sá að hugtökin “streita” eða “stress” eru notuð á marga mismunandi vegu. Þetta getur stundum leitt til misskilnings. Það er erfitt að skilgreina streitu, hún er vandmæld og að takast á við hana er oft tímafrekt og flókið. Þess vegna höfum við gjarnan tilhneigingu til að horfa frjamhjá vandamálinu og jafnvel afneita því. Við lítum oft á streitu sem eitthvað ósýnilegt og óáþreifanlegt, eitthvað sem kemur utan frá og við getum ekki brugðist við.

Til þess að skilja eðli og umfang streitu þurfum við að gera greinarmun á “streituvaldinum” sem fær líkama okkar til að bregðast við, og streituviðbrögðunum sem eru svar líkamans við hinu ytra áreiti. Streituvaldurinn er oftast utanaðkomandi þáttur sem getur komið okkur úr jafnvægi. Þetta getur verið bein aðsteðjandi hætta eins og bíll sem nálgast á mikilli ferð þegar við erum að fara yfir götu. Streituvaldurinn getur líka verið allt annars eðlis, t.d. miklar annir í vinnu, hjónabandsörðugleikar eða ástvinamissir. Svörun líkamamans eða streituviðbrögðin eru hins vegar nokkuð svipuð, hver sem streituvaldurinn er.

Þegar streituvaldur setur okkur úr jafnvægi ræsast ýmis varnarkerfi líkamans. Virkni “sympatiska” hluta ósjálfráða taugakerfisns eykst og nýrnahetturnar framleiða meira af adrenalíni og sterahormónum (t.d. kortisól) sem leita út í blóðið. Við getum ímyndað okkar aðstæður þar sem við mætum grimmu villdýri á göngu okkar. Við þessar aðstæður eru streituviðbrögð fullkomlega eðlileg og geta bjargað lífi okkar. Villidýrið er streituvaldurinn, svar líkamans eru streituviðbrögðin. Kortisól og adrenalín streyma út í blóðið. Hjartsláttarhraði eykst og blóðþrýstingur hækkar. Sykurmagn í blóði hækkar því við þurfum á einfaldri orku eða eldsneyti að halda. Öndun verður hraðari því vefir líkamans klalla á meira súrefni. Vöðvaspenna eykst. Öll skilningarvit eru fullvirkjuð. Við erum tlbúin til að flýja eða berjast til að bjarga lífi okkar.

Af þessu er augljóst að streituviðbrögðin eru mikilvægur hluti varnarkerfis líkamans og gera okkur kleift að bregðast við aðsteðjandi hættu. Við verðum einbeitt, orkumikil og á varðbergi. Sömu líkamlegu viðbrögð geta einnig verið hjálpleg við aðrar kringumstæður. Þau koma að gagni við krefjandi aðstæður í vinnu þar sem leysa þarf erfið verkefni. Þau hjálpa ræðumanninum í pontunni, leikaranum á sviðinu, lækninum í skurðaðgerðinni, og íþróttamanninum á hlaupabrautinni.

Hins vegar kemur oft að tímapunkti þar sem streituviðbröðgin verða svo mikil eða langdregin að þau fara að hafa skaðleg áhrif á heilsu okkar. Við þessar kringumstæður getur streitan dregið úr virkni okkar og valdið vanlíðan. Lífsgæði versna og hættan eykst á ýmsum sjúkdómum svo sem hjarta-og æðasjúkdómum.

Hvernig upplifum við streitu?

Hvað á fólk við þegar það telur sig þjást af streitu? Stundum kvörtum við yfir sjálfum streituvaldinum. Við tölum um persónuleg áföll, fjármálaerfiðleika, erfiðleika í hjónabandi eða slæmt vinnuumhverfi. Mikilvægt er að átta sig á því að streituvaldar sem eru i eðli sínu jákvæðir geta einnig valdið streituviðbrögðum. Kannski ertu að skipuleggja fermingarveislu eða stórafmæli. Kannski ertu að fara í sjónvarpsviðtal vegna áfanga sem þú hefur náð. Kannski ertu að taka þátt í íþróttakeppni, skákmóti, bridds eða golfmóti. Þetta eru væntanlega hlutir sem þú hefur ánægju af en sú staðreynd að um mót eða formlega keppni er að ræða leiðir oft til streituviðbrgða. Þannig geturðu upllifað streitueinkenni eins og einbeitingarörðugleika, svitamyndun, hraðan hjartslátt og svefnörðugleika. Flestir þekkja viðkvæðið “ég fór á taugum”, þegar illa gengur, eða jafnvel þegar vel gengur. Eitt af meginhlutverkum íþróttasálfræðinga er að hjálpa íþróttamanninum að stjórna sínum streituviðbrögðum.

Stundum tengjum við hins vegar kvartanir okkar alls ekki við streitu. Í staðinn kvörtum við um líkamleg einkenni eins og hjartsláttartruflanir, kviðverki, ógleði, niðurgang eða öndunarörðugelika. Sumir kvarta um kvíðatilfinningu og svefntruflanir.

Það er gagnlegt að gera greinarmun á bráðum og langvinnum streituvöldum. Dæmi um bráða streituvalda eru náttúruhamfarir eins og jarðskjálftar og snjóflóð, skyndilegur ástvinamissir, brotrekstur úr vinnu eða skyndileg fjárhagsleg áföll. Dæmi um langvinna streituvalda eru mikið vinnuálag, óhamingja í hjónabandi og langvinnir fjárhagserfiðleikar

Viðbrögð okkar við mismunandi streituöldum eru sannarlega mismunandi og einstaklingsbundin. Þannig erum við misvel í stakk búin til að takast á við streituvaldinn. Þetta veltur á einstaklingum sjálfum, presónugerð hans, lífsstíl og umhverfisþáttum. Einstaklingur sem hefur sterk fjölskyldu- eða vinatengsl getur átt auðveldara með að takast á við streituvalda en einstaklingur sem er félagslega einangraður. Gott dæmi um þetta er sagan af Roseto fólkinu sem ég mun fjalla um í næstu grein.

Greinina og fleiri frábærar greinar er að finna inn á síðu Axels F Sigurðssonar mataræði.is – hér

Leave a Reply