Volgt lambakjötssalat í balsamiklegi

Til að elda góðan mat þarf ekki mikið annað en ástríðu og áhuga fyrir matargerð. Það þarf að prufa sig áfram, skoða, lesa, mistakast, byrja aftur og gleðjast þegar manni er umbunað erfiðið með einhverju sem slær algjörlega í gegn.
Ef maður er ekki fyrir það að vera lengi í eldhúsinu en vill engu að síður elda og borða góðan mat, þarf ekkert annað en að kaupa sér uppskriftabækur eða hreinlega fara á netið og finna einfalda en um leið “rock-solid” rétti.

01

Þessi réttur er einn af þeim sem að krefst lítillar áreynslu en lætur viðstadda stynja af ánægju. Eins og með svo marga aðra rétti á síðunni minni segi ég..ef þið ætlið bara að gera einn rétt, gerið þá þennan!

Volgt lambakjötssalat í balsamiklegi
fyrir 4
ólífuolía
1 msk balsamikedik
600 gr lambafillet
1 grasker, butternut squash, skorið í teninga
1 búnt aspas, skorið í þrjá hluta
1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
kál að eigin vali
furuhnetur
fetaostur, hreinn

Aðferð

  1. Hitið ofninn á 200°c. Hrærið saman olíu, balsamikediki og salti og pipar. Bætið lambinu útí og nuddið blöndunni í kjötið. Setjið filmu yfir og geymið í ísskáp.
  2. Látið graskerið á bökunarplötu með smjörpappír. Hellið yfir smá olíu og saltið og piprið. Látið í ofninn í um 35 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt.
  3. Stekið aspasinn og laukinn á pönnu. Kryddið með salti og pipar.
  4. Takið lambið úr marineringunni. Steikið á rifflaðri pönnu við mikinn hita í um 3-4 mínútur á hvorri hlið. Látið inní ofn í nokkrar mínútur. Tekið úr ofni og látið standa í um 5-10 mínútur. Skerið í þunnar sneiðar.
  5. Raðið öllu hráefninu á disk, endið á lambinu, furuhnetum og myljið síðan fetaost yfir allt.
  6. Munið að láta mig vita hvernig ykkur líkaði!Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Berglindar Guðmundsdóttur – www.gulurdaudurgraennogsalt.com – smelltu hér

Leave a Reply