Ég veit að þetta verður erfitt svona til að byrja með. Það er það alltaf þegar maður hættir með einhverjum. Þannig að til þess að hjálpa mér þá hef ég skrifað þetta bréf sem fjallar um ástæður þess að þetta eitraða samband getur bara ekki haldið lengur áfram. Það er allt of mikið í húfi fyrir mig. Heilsa mín og framtíð er í húfi. Alltaf þegar mig langar að fara aftur til þín skal ég lesa þetta bréf yfir og fara aftur og aftur yfir ástæðurnar. Þetta samband hefur aldrei verið og verður aldrei heilbrigt.
Sykur, það er kominn tími á að við hættum saman. Þú ert ekki málið fyrir mig lengur.
Þú ert ekki góður fyrir mig og í sannleika sagt fæ ég ógleðistilfinningu yfir því hvernig þú lætur mér stundum líða.
Mér líður ekki vel þegar við erum saman og mér líður oft hræðilega þegar við erum búin að hittast mikið. Þú hefur einstakt lag á að láta mér líða illa. Ég fæ samviskubit eftir hvert sinn sem ég hitti þig og ég veit af hverju það stafar. Ég veit að þú hefur slæm áhrif á heilsu mína og andlega líðan og ég veit að það er engin framtíð með þér.
Og sykur…. það sem er erfiðast er að ég sé þig ALLSSTAÐAR og þú virðist vera ALLSSTAÐAR þar sem ég er, hvert sem ég lít, þarna ertu. Alltaf jafnsætur.
Þessu er lokið. Þú ert ekki lengur velkominn í mínu lífi. Þú ert ekki velkominn inn á heimili mitt lengur. Ég ætla að útiloka þig. Ég ætla að hætta með þér í dag en ég veit að ég mun eiga erfitt án þín. Ég mun hugsa til þín og ég mun sennilega þrá að fá þig aftur inn í líf mitt EN ég ætla að standa við þennan skilnað því heilsa mín og vellíðan skiptir mig meira máli en þú.
Þín, ekki lengur
Ég.