10 ástæður til að borða kókosolíu

Kókosolía er ein fárra fæðutegunda sem hægt er að kalla ofurfæðu. Einstök samsetning fitusýra hennar getur haft mikil og góð áhrif á heilsu.
Þar má telja þyngdarstjórnun, bætta heilastarfsemi og ýmsa aðra merkilega eiginleika. Hér er listi yfir 10 eiginleika kókosolíu sem hafa verið staðfestir í rannsóknum á mönnum.

Coconut oil 2

 

1. Kókosolía inniheldur einstaka samsetningu fitusýra

Kókosolía hefur verið fordæmd fyrir að innihalda mettaða fitu. Í rauninni eru um 90% fitusýranna í kókosoliu mettaðar (1).
Ný gögn sýna hins vegar að mettuð fita er skaðlaus. Fjöldi mjög stórra rannsókna þar sem þátttakendur voru jafnvel hundruðir þúsunda sýna að kenningin um að mettuð fita stíflaði æðar var ekkert annað en mýta (2).

Þar að auki inniheldur kókosolía ekki þessa klassísku mettuðu fitu sem þú finnur til dæmis í osti eða steik. Nei, hún inniheldur svokallaðar Medium Chain Triglycerides (MCT) – eða miðlungs langar fitusýrur. Flestar fitusýrur í matnum eru langar fitusýrur, en meðallöngu fitusýrurnar úr kókosolíunni meltast öðruvísi.

Úr meltingarveginum fara þær beint í lifrina, þar sem þær eru ýmist notaðar sem auðleysanlegur orkugjafi eða breytt í ketóna sem geta haft jákvæð áhrif á heilasjúkdóma eins og flogaveiki og Alzheimer.

Niðurstaða: Kókosolía inniheldur mikið af meðallöngum fitusýrum (MCT) sem meltast öðruvísi og hafa m.a. jákvæð áhrif á nokkra heilasjúkdóma.

 

2. Samfélög sem borða mikið af kókosolíu eru með þeim heilbrigðustu á jörðinni.

Kókos hefur verið fremur framandi fæða í hinum vestræna heimi og er aðallega heilsumeðvitað fólk sem neytir hans að einhverju leyti.
Þó eru aðrir staðir þar sem kókos er hefðbundinn hluti fæðunnar og fólk hefur þrifist á honum svo kynslóðum skiptir. Besta dæmið um samfélag af þessu tagi eru Tokelauarnir, en þeir búa við Suður-Kyrrahafið. Yfir 60% af hitaeininganeyslu þeirra er úr kókos og eru þeir stærstu neytendur mettaðrar fitu í heiminum. Þetta fólk er við frábæra heilsu og ber engin merki um hjarta- og æðasjúkdóma (3). Annað dæmi um samfélag sem borðar mikinn kókos og er við frábæra heilsu eru Kítavarnir (4).

Niðurstaða: Í heiminum eru mörg samfélög sem hafa þrifist og dafnað með því að borða mikið af kókos.

 

3. Kókosolía getur aukið brennslu og því hjálpað þér til að brenna meiri fitu

Offita er í dag eitt stærsta heilsufarsvandamál heimsins. Á meðan sumt fólk heldur að offita sé einungis spurning um neyslu of margra hitaeininga, þá eru aðrir (þar á meðal ég) sem trúa því að orkugjafarnir skipti ekki síður máli.

Það er staðreynd að mismunandi fæða hefur mismunandi áhrif á líkama okkar og hormónastarfsemi. Í þessu samhengi er hitaeining því ekki það sama og hitaeining. Meðallangar fitusýrur (MCT) kókosolíunnar auka brennslu frekar en sama magn hitaeininga úr löngum fitusýrum (5, 6).Ein rannsókn sýnir að 15-30 grömm af MCT á dag jók sólarhringsbrennslu um 5%, sem eru ca 120 hitaeiningar á dag (7).

Niðurstaða: Það hefur sýnt sig að meðallangar fitusýrur kókosolíunnar hafa aukið sólarhringsbrennslu líkamans um 5% sem getur leitt til töluverðs þyngdartaps til lengri tíma.

 

4. Lauricsýran í kókosolíu getur drepið sýkla, veirur og sveppi og hjálpar því til við að bægja frá sýkingum

Nánast 50% fitusýra í kókosolíu eru 12-liða Lauricsýran. Þegar kókosolía blandast meltingarensímum breytist hún líka í einglýseríð sem heitir monolaurin. Bæði lauricsýra og monolaurin geta drepið sýkla, vírusa og sveppi (8). Til dæmis hefur það sýnt sig að bæði þessi efni drepa sýkilinn Staphylococcus Aureus (mjög hættulegur…) og gersveppinn Candida Albicans, sem er algeng örsök sveppasýkingar í mönnum (9, 10).

Niðurstaða: Fitusýrur kókosolíu og afurðir þeirra geta drepið sýkla, veirur og sveppi og jafnvel komið í veg fyrir sýkingar að einhverju leyti.

 

5. Kókosolía er mettandi og dregur því úr matarlyst

Einn athyglisverður eiginleiki kókosolíu er sá að hún dregur úr hungurtilfinningu. Þetta getur tengst því hvernig fitusýrurnar meltast, þar sem ketónar geta dregið úr matarlyst (11). Í einni rannsókn var 6 mönnum gefið mismunandi magn af miðlungs og löngum fitusýrum. Mennirnir sem fengu mest af miðlungs fitusýrum (MCT) borðuðu 256 hitaeiningum minna á dag að jafnaði (12).

Önnur rannsókn þar sem 14 hraustir menn tóku þátt sýndi að þeir sem borðuðu mest af MCT fitusýrum að morgni borðuðu áberandi minna í hádeginu (13). Þessar rannsóknir voru smáar og aðeins framkvæmdar yfir stutt tímabil. Ef þessi áhrif væru til langs tíma gæti það haft mikil áhrif á líkamsþyngd yfir nokkurra ára tímabil.

Niðurstaða: Fitusýrur í kókosolíu geta dregið úr matarlyst, sem getur haft jákvæð áhrif á líkamsþyngd yfir lengri tíma.

 

6. Fitusýrur í kókosolíu breytast í ketóna sem geta dregið úr flogum

Það er mikið verið að rannsaka svokallað ketónskt fæði (mjög fá kolvetni, mikil fita) til meðferðar á ýmsum sjúkdómum. Þekktasta dæmið er meðhöndlun flogaveiki hjá börnum sem þola illa lyf (14). Þetta fæði byggir á að borða mjög lítið af kolvetnum og mikið af fitu en það leiðir til mikillar fjölgunar ketóna í blóðinu. Einhverra hluta vegna getur þetta fæði dregið umtalsvert úr tíðni floga hjá flogaveikum börnum, jafnvel þeim sem hafa ekki náð árangri á ýmsum tegundum flogaveikilyfja.

Þar sem MCT í kókosolíu fer beint í lifrina og breytist þar í ketóna, þá er hún oft notuð hjá flogaveikum sjúklingum til að ýta undir ketósis á sama tíma og sjúklingurinn getur þá leyft sér aðeins fleiri kolvetni í matnum (15, 16).

Niðurstaða: Miðlungslöngu fitusýrurnar í kókosolíu geta fjölgað ketónum í blóðinu, sem hjálpar til við að draga úr flogaköstum hjá flogaveikum börnum.

 

7. Kókosolía getur bætt kólesterólgildi og dregið úr hættu á hjartasjúkdómum

Kókosolía er hlaðin mettaðri fitu sem hefur ekki skaðleg áhrif á blóðfitu eins og áður var talið. Mettuð fita bætir HDL (góða) kólesterólið og breytir LDL kólesterólinu í betri undirgerð (17, 18). Í rannsókn á 40 konum kom í ljós að kókosolía dró bæði úr heildarmagni kólesteróls og LDL kólesteróli, á meðan HDL kólesteról jókst, samanborið við sojaolíu (19).

Það eru líka til rannsóknir á rottum sem sýna að kókosolía dregur úr þríglýseríðum, heildar og LDL kólesteróli, eykur HDL kólesteról og bætir blóðstorkuþætti og andoxunargildi (20, 21). Þessi bæting á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma ætti fræðilega að leiða til minni hættu á hjartasjúkdómum til lengri tíma.

Niðurstaða: Rannsóknir á mönnum og rottum sýna að kókosolía bætir mikilvæga þætti eins og heildarkólesteról, LDL og HDL kólesteról, sem getur leitt af sér minni hættu á hjartasjúkdómum.

 

8. Kókosolía getur verndað hár fyrir skemmdum, bætt raka í húð og verndað fyrir sólargeislum

Kókosolía er til ýmissa hluta nytsamleg annarra en að borða hana. Margir nota hana til að bæta heilsu og útlit bæði húðar og hárs. Rannsóknir á einstaklingum með þurra húð sýna að kókosolía getur bætt rakastig húðarinnar (22).

Kókosolía getur líka verndað hár fyrir skemmdum og ein rannsókn sýnir að hún getur einnig virkað sem sólarvörn þar sem hún blokkar um 20% útfjólublárra geisla sólarinnar (23, 24). Sumir nota kókosolíu sem munnskol með aðferð sem kölluð er “oil pulling“, sem getur drepið slæma sýkla í munninum, bætt tannheilsu og dregið úr andremmu (25, 26, 27).

Niðurstaða: Kókosolía getur líka verið notuð útvortis, rannsóknir sýna að hún getur nýst sem rakakrem og verndað hár fyrir skemmdum. Hún er líka mild sólarvörn og ágætis munnskol.

 

9. Fitusýrurnar í kókosolíu geta bætt heilastarfsemi hjá Alzheimer sjúklingum

Alzheimer sjúkdómur er ein algengasta orsök elliglapa í heiminum og stórt heilbrigðisvandamál. Alzheimer sjúklingar virðast eiga erfiðara með að nýta orku úr glúkósa í ákveðnum svæðum heilans. Ketónar nýtast sem orka fyrir heilann og rannsakendur hafa velt fyrir sér hvort þeir geti veitt þessum svæðum í heilanum orku og þannig dregið úr einkennum Alzheimer (28).

Ein rannsókn sem framkvæmd var árið 2006 sýndi að neysla á miðlungs löngum fitusýrum leiddi strax til bættrar heilastarfsemi hjá sjúklingum með mildari einkenni Alzheimer (29). Aðrar rannsóknir styðja þessar niðurstöður og er núna mikið verið að rannsaka miðlungs langar fitusýrur sem meðferðarráð við Alzheimer (30, 31).

Niðurstaða: Rannsóknir sýna að fitusýrurnar í kókosolíu geta aukið ketóna í blóði sem nýtast sem orka fyrir heilafrumur hjá Alzheimer sjúklingum og létta því einkenni.

 

10. Kókosolía getur hjálpað þér við fitutap, sérstaklega að losna við hættulegu kviðfituna

Að því gefnu að kókosolía geti dregið úr matarlyst og aukið fitubruna er fullkomið vit í því að hún geti hjálpað þér við að léttast. Kókosolía virðist vera sérlega árangursrík til að losa um kviðfitu, sem liggur á magasvæðinu og í kringum helstu líffæri. Þetta er alhættulegasta fitan og tengist á beinan hátt ýmsum velferðarsjúkdómum. Mittismál er góður mælikvarði á magn fitu á magasvæðinu og það er auðvelt að fylgjast með því.

Í rannsókn á 40 konum með offitu á kvið voru þeim gefnar 30 ml af kókosolíu á dag sem leiddi til marktækrar lækkunar á BMI og mittismáli yfir 12 vikna tímabil (19). Önnur rannsókn á 20 offeitum karlmönnum mældi að meðaltali minnkun á mittismáli um 2,86 cm eftir að þeir höfðu neytt 30 ml af kókosolíu í 4 vikur (32). Á yfirborðinu eru þessar tölur kannski ekkert sérstakar, en þú þarft að gæta þess að þetta fólk bætti hvorki við sig æfingum né fækkaði það hitaeiningum. Fólkið losaði sig við töluverða kviðfitu einungis með því að bæta kókosolíu við matinn.

Eitthvað fleira?

Ef þú vilt njóta jákvæðra áhrifa kókosolíu skaltu ganga úr skugga um að þú veljir lífræna kókosolíu. Þetta var aðeins toppurinn á ísjakanum. Fólk notar kókosolíu til alls konar hluta með ótrúlegum árangri.

Greinina er að finna á heimasíðunni: betrinaering.is – hér

Leave a Reply