Buffaló kjúklingasalat með gráðostasósu

min_img_2768

Þegar ég var á Flórída fyrir nokkrum árum með foreldrum mínum og manninum mínum (þá kærasta) voru buffaló vængir ósjaldan pantaðir á veitingastöðum. Pabbi og maðurinn minn helltu sér þá gjarnan yfir djúpsteikta vængjastaflana sem voru borðaðir með bestu lyst í miklum hita og raka við klúbbhúsið á golfvellinum og buffaló sósan svo sterk að logarnir stóðu út úr þeim. Okkur mömmu þótti nú stundum alveg nóg um og þrátt fyrir að líka afar vel sterka buffaló bragðið þá þótti okkur þessi villimennska yfir beinunum aðeins of mikið af því góða. Með vængjunum var svo auðvitað borið fram hefðbundið meðlæti, sellerístangir og gráðostasósa.

Þrátt fyrir að vera ekki mikil beinanögunarmanneskja sjálf finnst mér þessi samsetning, þ.e. buffaló kjúklingur og gráðostur alveg dásamlega góð. Það var svo einu sinni að ég fékk á veitingastað hér heima alveg frábært buffaló kjúklingasalat með gráðostasósu. Salatið hitti beint í mark hjá mínum bragðlaukum og ég gat notið buffaló stemmningarinnar án þess að vera með kjúklingabein í andltinu og klístruð á puttunum. (Það er þó alveg staður og stund fyrir svoleiðis.. stundum ekki misskilja mig). En nú er veitingastaðurinn hættur og buffaló salatið sömuleiðis. Ég hef því endurvakið þetta frábæra salat heima við og útkoman var alveg hreint ljómandi gómsæt. Það er sko ekkert leiðinlegt eða bragðlaust við þetta kjúklingasalat og ég gæti sennilega borðað það oft í viku án þess að fá leið á því.

min_img_2764

Buffaló kjúklingasalat með gráðosti (fyrir 2):

  • 2 eldaðar kjúklingabringur, t.d grillaðar
  • 4 msk Buffalo Hot sauce
  • 2 msk smjör
  • Gott salat, t.d Lambhagasalat
  • 3 vorlaukar
  • 3 tómatar
  • Gráðostur eftir smekk

Aðferð: Byrjið á að elda kjúklingabringurnar í gegn. Rífið eða saxið salatið og leggið á fat eða stóran disk. Saxið tómatana og vorlaukinn frekar smátt og dreifið yfir salatið. Bræðið smjörið í litlum potti og hellið buffaló sósunni yfir og pískið vel saman við smjörið. Hellið sósunni svo yfir eldaðar kjúklingabringurnar og veltið þeim vel upp úr sósunni. Skerið bringurnar svo í þunnar sneiðar og leggið ofan á salatið. Myljið gráðostinn að lokum yfir.

min_img_2781

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Helenu Gunnarsdóttur – www.eldhusperlur.com – smelltu hér

Leave a Reply