Eggja og beikonmúffur

img_9899 img_9925

Þeir sem fylgjast með Eldhússögum á Instagram eða á Facebook sáu að ég setti inn myndir í vikunni sem birtust einmitt í Vikunni! Ég var nefnilega beðin um að vera matgæðingur Vikunnar og gefa þrjár uppskriftir. Mér fannst þetta spennandi verkefni og ákvað að gefa nýjar uppskriftir sem ég hef ekki sett inn á bloggið enn.

vikan2-001

Ein þeirra er ofsalega ljúffeng og góð tælensk kjúklinga- og sætkaröflusúpa. Þetta er bragðmikil og einkar bragðgóð súpa sem er ákaflega einföld og fljótlegt að búa til. Önnur uppskriftin var að blautri súkkulaðiköku með glóaldini, það er dásamleg súkkulaðikaka með appelsínubragði, minnir á kattartungurnar góðu. Þriðja uppskriftin er af einum þeim besta laxarétti sem ég hef smakkað! Sojamaríneraður lax með mangó/avókadósalsa og smjörsteiktu spínati. Þennan rétt tekur engan tíma að elda en maður minn hvað hann er góður! Samsetningin er skotheld, ljúffengur laxinn með bragðgóðu maríneringunni og dásamlega góða meðlætið – það er bara skylda fyrir laxaunnendur að prófa þennan rétt! Tölublaðið af Vikunni með ofantöldum uppskriftum kom út fyrir helgi, ég hvet ykkur til þess að næla ykkur í eintak!

vikan1-001

Í dag ætla ég að setja inn uppskrift af ekki síður góðum mat. Þetta eru eggja- og beikonmúffur sem slógu í gegn í sextugsafmæli mömmu (meira um afmælisveitingarnar í næstu færslu! ;) ). Þar sómdu múffurnar sér einstaklega vel á brunch-borðinu.

img_9925

Múffurnar eru ákaflega ljúffengar og afar einfaldar að útbúa. Það eina sem krefst er að vera með gott möffinsform. Ég prófaði að gera þær í einnota möffinsformum en þær festust of mikið við formin fyrir minn smekk. Ég notaði því “non stick” möffinsform sem tekur 24 múffur í einu, þetta er svona míní-möffinsform. Ég fékk það í Hagkaup á 2990 kr. Múffurnar losnuðu mjög auðveldlega úr forminu, ég þurfti ekki einu sinni að smyrja það að innan. Það er afar gaman að bera þessar múffur fram á til dæmis “brunch” borði því þær eru svo fallegar. Eins er svo skemmtilegt að með þessum múffum fær maður morgunverðinn allan í einum litlum gómsætum bita – egg, beikon og ost!

img_0094

Svona líta múffurnar út að innan

Það er auðvitað líka hægt að nota þessa uppskrift venjuleg möffinsform sem eru stærri (taka þá oft átta eða tólf múffur í einu). Þá þarf bara að auka aðeins við bökunartímann.

Uppskrift (passar í eitt möffinsform sem tekur 24 mínímúffur eða form sem tekur 12 venjulegar múffur):

  • 10 egg
  • 150 g rifinn ostur (ég notaði mozzarella)
  • 3/4 dl rjómi
  • ca 140 gr beikon
  • sléttblaða steinselja, skorin smátt (ég notaði ca. 1 dl), líka hægt að nota graslauk
  • salt og grófmalaður svartur pipar
  • það er hægt að bæta við öðrum hráefnum eftir smekk, t.s. spínati, eins er hægt að gera múffurnar meira “spicy” með t.d. með því að krydda þær með chiliflögum.img_9864

    Ofn er hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Beikonið er steikt á pönnu þar til það er orðið stökkt, þá er það skorið í litla bita. Eggin er þeytt létt saman í skál. Því næst er rifna ostinum, rjómanum, steinseljunni og kryddinu bætt út í. Blöndunni er því næst ausið með skeið ofan í möffinsformið. Gæta þarf að fara vel ofan í botninn á skálinni með skeiðinni og þannig sjá til þess að beikonið og osturinn dreifist jafnt ofan í hvert hólf. Best er að sléttfylla hólfin.

    img_9870

    Þá eru múffurnar bakaðar við 180 gráður í 15 mínútur. Á meðan bakstri stendur rísa múffurnar vel upp úr forminu en falla síðan dálítið niður eftir að þær eru teknar út.

    img_9911

    Svona líta múffurnar út í lok bökunartímans

    img_9898

    Hér eru múffurnar byrjaðar að falla saman eftir baksturinn – það er alveg eðlilegt.Hjá mér voru múffurnar alveg lausar í forminu og auðvelt reyndist að fær þær upp á disk með gaffli. Gott er að bera múffurnar fram heitar en það er líka hægt að bera þær fram kaldar.

    img_9905

    Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Drafnar Vilhjálmsdóttur – www.eldhussogur.com – smelltu hér

 

Leave a Reply