Kotasæluklattar

img_7675

Í dag er fyrsti skóladagurinn hjá yngstu börnunum. Ég er eiginlega ekki tilbúin, mér finnst sumrinu vera lokið þegar skólarnir byrja og ég er enn að sætta mig við hvað sumrin hér á Íslandi eru stutt! Þegar við bjuggum í  Svíþjóð fannst mér vera þar sumar frá apríl og alveg fram í lok september. En það er nú reyndar ekki hægt að kvarta yfir þessu dásamlega sumri sem við fengum á Íslandi í ár, það mætti bara vera lengra! 🙂

En eftir allar matarveislur sumarsins er kannski tími til komin að huga að hollustu! Mér finnst reyndar voðalega leiðinlegt að pæla allt of mikið í svoleiðis hlutum og reyni að forðast öfga í mataræðinu. Ég elda mat úr ferskum og fjölbreyttum hráefnum, nota mikið grænmeti, forðast unna matvöru og finnst það vera heilbrigð hollusta. Ég er ekki hlynnt algjörlega kolvetnislausu fæði en ég finn samt að það gerir mér gott að sneiða hjá miklum kolvetnum. Ég byrjaði því núna síðsumars að minnka brauðát. Það getur verið snúið að finna eitthvað í stað brauðsins. Ég fæ mér oft eggjaköku í hádeginu og borða með henni ávexti og grænmeti, finnst það  afskaplega gott. En fyrir nokkru síðan sá ég uppskrift af kotasæluklöttum sem eru meira og minna kolvetnislausir. Það sem stoppaði mig í að prófa uppskriftina var að í henni er ,,fiberhusk”. Ég vissi að þetta var einhverskonar trefjaviðbætir til að halda saman deiginu, sem er án hveitis, en fann það ekki í hefðbundnum búðum. Ég komst svo að því að þetta trefja husk fæst til dæmis í Heilsuhúsinu, í apótekum og í mörgum heilsuhornum frá Now meðal annars. Þá var ekkert því til fyrirstöðu að prófa klattana. Mér fannst dálítið erfitt að steikja klattana fyrst um sinn, deigið virtist afar linnt og það var eins og klattarnir næðu ekki að steikjast almennilega. Ég þurfti að ,,sópa” þeim svolítið saman með steikarspaðanum til að þeir héldu forminu. En eftir smátíma og eftir að ég hækkaði aðeins hitann á pönnunni gekk þetta betur og ég fékk þessa fínu kotasæluklatta.

Uppskrift (2 klattar):

125 gr. kotasæla
    0.75 msk trefjahusk (fæst í Heilsuhúsinu), mér skilst að hægt sé að nota 1.5 msk af muldu haframjöli í staðinn – hef ekki prófað það sjálf.
    1 egg
    örlítið salt
    1 msk olía til steikingar, gott að nota kókosolíu

senast-c3b6verfc3b6rda4

Maukið allt hráefnið saman með töfrasprota og látið standa í mínútu eða tvær. Setjið feiti á pönnuna, best er að nota teflonpönnu. Hitið olíuna á fremur háum hita á pönnunni, ausið svo deiginu á pönnuna í tvær ,,hrúgur”. Lækkið hitann niður í meðalhita (ég steikti á 5 af 9). Steikið í nokkrar mínútur og ýtið klöttunum saman með steikarspaðanum öðru hvoru ef þeir renna mikið til. Steikið þar til klattarnir eru orðnir nægilega stökkir þannig að hægt sé að snúa þeim við. Ég snéri þeim síðan við nokkrum sinnum, setti svo á milli þeirra mozzarella og skinku og leyfi því aðeins að bráðna saman við klattana á pönnunni. Ekki er verra að bæta líka við ferskri basiliku og tómötum og grilla svo klattasamlokuna í samlokugrilli!

img_7677

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Drafnar Vilhjálmsdóttur – www.eldhussogur.com – smelltu hér

Leave a Reply