Pestó Prestó pizzu frittata

img_1652

Suma daga þegar ég nenni engan veginn að elda kvöldmat, (já það gerist) þá langar mig eiginlega heldur engan veginn að kaupa tilbúinn mat. Það eru allavega ekki margir ”take away” staðir sem heilla mig þessa dagana. Ef það er eitthvað, þá er það helst tælenskur eða indverskur matur sem stundum læðist tilbúinn hingað inn á heimilið. Eftir að hafa smakkað besta tælenska mat utan Tælands lætur maður ekki bjóða sér hvaða tælenska mat sem er. Við erum að tala um Gamla Síam á Laugarveginum, sannarlega í miklu uppáhaldi og þrátt fyrir að búa langt ofan snjólínu í nágrenni Litlu kaffistofunnar kemur fyrir að við gerum okkur ferð niður af fjallinu til að kaupa þann dásamlega tælenska mat. Hann er engum líkur! Mæli sérstaklega með núðlusúpunni (extra spicy) og Massaman Karrý með kjúkling, þetta er æði.

En þessi pestó prestó eggjapizza/frittata er einmitt svona matur sem gott er að grípa til þegar enginn nennir neinu. Það þarf varla að elda þetta og tekur bara um 5 mínútur að mixa þetta saman. En útkoman er bara dáfín, sæmilega holl og börn sem fullorðnir geta vel kallað þetta kvöldmat ef þau eru bara með opinn huga. Á mínu heimili þykir gott að hafa kotasælu með pizzum, ég geri mér grein fyrir að það þykir ekki fínt svona almennt. Þetta er nú bara tilkomið vegna móðurömmu minnar sem þótti ekkert sérstaklega varið í pizzur en taldi þær öllu skárri ef kotasælu, sem hún kunni afar vel að meta, var smurt ofan á. Hér er því oftast kotasæla borin fram með pizzum og syni mínum þykir það alveg afbragðsgott og ómissandi.. Mér finnst svo alveg ótrúlega gott að setja Sriracha sósu yfir svona eggjakökur og toppa þær svo með smá baunaspírum. Í þetta sinn notaði ég alveg æðislega góðar íslenskar blaðlauksspírur sem ég fékk í Hagkaup.

img_1649

Pizzu pestó frittata (fyrir tvo):

  • 4 egg
  • Salt, pipar og óreganó
  • 2 msk grænt pestó
  • Nokkrar sneiðar silkiskorin hunangsskinka
  • Nokkrar ostsneiðar eða rifinn ostur
  • Ofaná: Sriracha sósa, kotasæla og spírur

Aðferð: Kveikið á grillinu í bakarofni. Hærið eggin saman með örlitlu vatni. Kryddið með salti, pipar og óreganó. Hitið smá olíu á pönnu við háan/meðalhita og hellið eggjunum á pönnuna. Þegar þau eru næstum elduð í gegn smyrjið þá pestóinu ofan á, raðið svo skinkunni og ostinum yfir. Kryddið með aðeins meira óreganó. Stingið þessu aðeins undir grillið í ofnum þar til osturinn er farinn að bakast. (Líka hægt að setja lok á pönnuna og bíða þar til osturinn bráðnar).

img_1651

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Helenu Gunnarsdóttur – www.eldhusperlur.com – smelltu hér

Leave a Reply