Súkkulaðifrauð

img_9757

Eins og ég sagði frá í gær þá var ég með matrétti um helgina sem henta LKL mataræðinu. Það hefur nú varla farið fram hjá mörgum að þetta mataræði er orðið afar vinsælt hér á landi. Mataræðið inniheldur mjög lítið magn kolvetna, prótein og síðast en alls ekki síst, fitu! Það getur verið dálítið flókið að sneiða hjá kolvetnum en kosturinn við þetta mataræði er að það er margt gott leyfilegt. Eftirrétturinn sem ég hafði um helgina var gómsæt súkkulaðimousse eða súkkulaðifrauð. 70-80% súkkulaði er leyfilegt til hátíðabrigða á LKL matarræðinu. Þetta súkkulaðifrauð er afar einfalt en ákaflega ljúffengt í því er einungis dökkt súkkulaði, eggjarauður og þeyttur rjómi. Dásamlega einfalt og gott! Ég hef áður bloggað um súkkulaðifrauð. Þar kemur einmitt fram að súkkulaðifrauðin eru til í allskonar útgáfum. Það er af og frá að þetta LKL – súkkulaðifrauð sé einungis fyrir þá sem eru á lágkolvetnismataræði, það er sannarlega fyrir alla aðra sælkera líka!

img_9756

Uppskrift f. 4-6:

 

  • 100 g dökkt súkkulaði, helst 80%
  • 2 eggjarauður
  • 3 dl rjómi
  • einhverskonar bragðbætir, td. koníak (ég sleppti slíku)

 

Súkkulaðið er brytjað niður og brætt yfir vatnsbaði við vægan hita, látið kólna dálítið. Því næst er eggjarauðunum bætt út í súkkulaðið einu í senn og blandað vel saman við súkkulaðið. Rjóminn er þeyttur og dálitlum hluta af honum, ca. 1/2 dl., bætt saman við súkkulaðiblönduna og hrært þar til að allt er vel blandað saman. Þá er restinni af rjómanum bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Blöndunni er skipt í glös og látin stífna í ísskáp í minnst 2 tíma áður en hún er borin fram. Gott er að bera fram þeyttan rjóma með súkkulaðifrauðinu og jafnvel skreyta með jarðaberjum eða hindberjum – þau eru leyfileg í LKL!

Hér eru dásamlegu Lattebollarnir frá Cup Companynotaðir undir súkkulaðimúsina!

img_97531

Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Drafnar Vilhjálmsdóttur – www.eldhussogur.com – smelltu hér

 

Leave a Reply