Sykurlaus rjóma og jarðaberja skyrís

min_img_3167

Það er varla til meira viðeigandi ávöxtur til að nota um hásumarið en jarðarber. Ég fann þessi dásamlega góðu og eldrauðu jarðarber í matvörubúð í dag og það sem meira var þá voru þau á góðum afslætti. Ég gat því ekki látið happ úr hendi sleppa, skellti mér á þrjú box og einhverra hluta vegna var jarðarberjaís það eina sem kom upp í huga minn.

min_img_3144

Margir búa til ís heima hjá sér um jólin en einhverra hluta vegna er fólk (ég) ekki að búa til ís svona á öðrum árstímum. En það er bara endemis vitleysa, enda ís einstaklega sumarlegur og frekar einfalt er að búa hann til. Í þessari útgáfu notaði ég ekki venjulegan sykur, heldur skipti honum út fyrir steviu og xylitol. Það er hins vegar einfaldasta mál að skipta því út vilji fólk nota venjulegan sykur. Ísinn er algjörlega frábær á bragðið, ferskur en samt rjómakenndur og svo einfaldur að þið trúið því ekki. Prófið þennan!

min_img_3159

Jarðarberjaís:

  • 3 heil egg
  • 3 eggjarauður
  • 15 dropar stevia og 4 msk xylitol (eða 5 msk venjulegur sykur)
  • 500 gr jarðarber
  • 2 tsk vanilluextract
  • Stór dós vanillu skyr.is (500gr)
  • 5 dl rjómi

    min_img_3142

 

Aðferð: Byrjið á að þeyta rjómann og blandið skyrinu varlega saman við hann. Geymið í ísskáp á meðan þið útbúið restina. Vigtið 500 grömm af hreinsuðum jarðarberjum og maukið þau í gróft mauk í matvinnsluvél eða blandara. Setjið eggin, eggjarauðurnar, steviu og xylitol (eða sykurinn) í hrærivél og þeytið af fullum krafti í 5 mínútur eða þar til blandan er orðin mjög ljós og létt og hefur þykknað vel. Blandið rjómaskyrblöndunni varlega saman við eggjablönduna ásamt jarðarberjamaukinu og vanilluextracti. Hrærið varlega saman með sleikju þar til þetta er komið vel saman. Hellið í box og frystið í a.m.k 6 – 8 tíma. Njótið á heitum sumardegi eða bara í rigninunni. Það má líka :)

Athugið að þegar ísinn hefur frosið í gegn er hann frekar harður. Það er því þjóðráð að taka hann úr frystinum og leyfa honum að standa á borði í 15-20 mínútur og skafa hann svo í fallegar kúlur.

min_img_3169

min_img_3181
Uppskriftina er að finna á blogginu hennar Helenu Gunnarsdóttur – www.eldhusperlur.com – smelltu hér

 

Leave a Reply